Tækifærin á svæðinu í stöðugri þróun

Una er uppalin á Höfn en fluttast svo til Reykjavíkur þar sem hún lærði fatahönnun við Listaháskóla Íslands. Eftir átta ár í borginni sneri Una til baka til Hafnar ásamt manni sínum og barni og segir hún fjölskylduna heilt yfir mjög ánægða með þá ákvörðun.
Komin heim og á „gamla hótelið sitt“
Una er hótelstjóri á Hótel Jökli í Nesjum. Hótelið er henni sérlega vel kunnugt.
„Foreldrar mínir keyptu Hótel Eddu á sínum tíma og breyttu því í Hótel Jökul. Því má segja að minn ferill í ferðabransanum hafi byrjað þar. Við áttum hótelið í 10 ár og ákváðum svo að selja það.“
Það var þó ekki starfsins vegna sem Una flutti heim til Hafnar eftir nokkurra ára dvöl í Reykjavík.
„Það sem dró mig mest að svæðinu var að vera nær fjölskyldunni, rólegt umhverfi, ódýrara húsnæði og tækifæri.“
Ári eftir flutningana á heimaslóðirnar bauðst Unu spennandi tækifæri.
„Eftir ár heima bauðst mér það tækifæri að koma aftur á gamla hótelið mitt sem hótelstjóri og tók ég manninn minn með í það verkefni. Ég myndi segja að áhuginn minn á þeim bransa sé mun meiri í dag en í denn enda er starfið mitt virkilega fjölbreytt og OFTAST skemmtilegt.“
Svæðið opið fyrir nýjungum
Reynsla Unu er sú að Hornfirðingar séu almennt áhugasamir og móttækilegir fyrir nýjum hugmyndum.
„Það er auðvelt að koma með nýjungar á svæðið þar sem að mér finnst Hornfirðingar almennt mjög spenntir þegar að það kemur einhver ferskur inn í samfélagið og gerir eitthvað nýtt. Ég held að tækifærin á svæðinu séu í stöðugri þróun.“
Áframhaldandi þróun svæðisins telur Una ákveðið grundvallaratriði til að ungt fólki velji að setjast hér að.
Áskoranir við að flytja aftur heim
„Það getur verið skrítið að flytja aftur heim eftir langan tíma og kynnast fólki upp á nýtt“ segir Una. Með tímanum hefur félagslífið þó dafnað og stundar Una til dæmis bæði blak og golf.
Varðandi félagslífið bætir Una við að á því sviði sé „ákveðinn þægindarammi sem að maður myndi kannski ekki þora að stíga út fyrir annarsstaðar“.
Allt nám kemur að gagni
Una er sannfærð um gagnsemi alls sem fólk lærir. Menntun skili sér alltaf og alls staðar. Gildi menntunar og náms eiga ekki síður við á landsbyggðinni en annars staðar.
„Þó að þú búir út á landi þá hefur allavega okkar svæði marga möguleika upp á að bjóða. Maður þarf ekki að hugsa „menntunin mín myndi aldrei gera gagn í svona litlu samfélagi“. Sama hvað þú lærir, það mun alltaf nýtast þér, hvar sem þú ert.
Í tilfelli Unu er ekki endilega bein tenging á milli menntunar og starfsvettvangs eða ákvörðunar um búsetu. Þekkingin skilar sér samt sem áður.
„Námið mitt hefur ekki beint haft áhrif á ákvörðunina mína um búsetu en þó get ég alltaf nýtt mér þá þekkingu sem að ég hef í dag vegna námsins í daglegu lífi.“