Um HeimaHöfn

Verkefnastjórar Nýheima
þekkingarseturs hafa um margra ára skeið lagt áherslu á ungt fólk í
sveitarfélaginu og unnið að valdeflingu ungmenna með fjölbreyttum hætti.
Verkefnin hafa verið af ólíkum toga og flest þeirra verið fjármögnuð af samkeppnissjóðum. Verkefnin hafa gefið ungu fólki vettvang til að láta í
ljós skoðanir sínar, rýna í samfélagið og sig sjálf í leiðinni og eflt þau til
samfélagsþátttöku.

Í öllum þessum verkefnum hefur mikið verið fjallað um félagsleg tengsl, búsetuval og viðhorf ungmenna til samfélagsins sem og tækifæra til atvinnu, menntunar og frístundastarfs á svæðinu. Ákveðinn rauður þráður hefur verið gegnumgangandi þegar kemur að samspili þessara þátta og áhrifum þeirra á ákvarðanir ungs fólks um framtíð
sína í sveitarfélaginu. Þetta er ekki einsdæmi og samkvæmt rannsóknum eru
áskoranirnar sambærilegar í öðrum landsbyggðasamfélögum á Norðurlöndum.  

Verkefnastjórar setursins hafa því mótað heildstætt langtíma verkefni sem tekur á fjölþættum áskorunum sem ungt fólk og landbyggðarsamfélög standa frammi fyrir. HeimaHöfn er fyrsta íslenska byggðaþróunarverkefnið sem unnið er með svo heildstæðum hætti og kjarnast um ungt fólk og eflingu byggðar. Verkefnið er hagnýtt þróunarverkefni sem getur orðið fyrirmynd annarra landsbyggðarsamfélaga. 

Ungt fólk, byggðarfesta og búsetuflutningar eru sameiginlegt viðfangsefni landsbyggðarsamfélaga. HeimaHöfn er gott dæmi um það hvernig Nýheimar þekkingarsetur vinnur með beinum hætti að eflingu byggðar og samfélags á svæðinu. Verkefnið miðar að því að
styrkja samkeppnishæfni og aðdráttarafl Hornafjarðar sem framtíðarbúsetukost.
Með verkefninu er sjónum beint enn frekar að þróun og sjálfbærni byggðar og samfélags með ungt fólk í forgrunni. Með ólíkum verkþáttum er unnið markvisst
að því að stuðla að jákvæðri upplifun og  viðhorfi ungmenna til framtíðarinnar í Hornafirði. Verkefnið felur í sér náið samstarf með ungu
fólki, skólum, atvinnulífi, félagasamtökum og öðrum hagaðilum á svæðinu sem vinna sameiginlega að markmiðum verkefnisins með ólíkum leiðum. Sem dæmi um viðfangsefni má nefna miðlun upplýsinga um fjölbreytt tækifæri til menntunar og atvinnu á svæðinu. Auk þess er unnið að því að efla og viðhalda tengslum við ungmenni, efla félagslega virkni þeirra og samfélagsþátttöku. Einnig er áhersla á að viðhalda tengslum við ungmenni sem fara annað, til dæmis í nám, og hafa mögulega hug á að snúa aftur.

HeimaHöfn vinnur að markvissum aðgerðum til að stuðla að jákvæðari sýn ungmenna á tækifæri í heimabyggð, efla tengsl þeirra við samfélagið og vekja athygli á svæðinu sem vænlegum búsetukosti til framtíðar. HeimaHöfn er ætlað að styrkja nærsamfélagið og skapa umhverfi þar sem ungmenni sjá framtíð sína. Mikilvægt er að ungt fólk kynnist ólíkum möguleikum samfélagsins og taki þátt í að móta framtíð svæðisins. Með því að skapa sterkari tengsl við heimabyggðina og auka sýnileika tækifæra er byggðafesta efld og ungt fólk getur tekið upplýstar ákvarðanir um framtíð sína.

Hugmyndin að verkefninu kviknaði undir lok árs 2023 og hefur þróast með tímanum í samstarfi við fjölbreyttan hóp lykilaðila. Strax var hafist handa við að virkja tengslanet setursins og samband haft við aðila sem vinna með ungu fólki og byggðaþróun víðs vegar á landinu og einnig erlendis. Þá blés starfsfólk Sveitarfélagsins Hornafjarðar lífi í hugmyndina meðal annars með tengslum við skóla og frístundir. HeimaHöfn er samstarfsverkefni Nýheima þekkingarseturs og Sveitarfélagsins Hornafjarðar sem í sameiningu fjármagna 50% stöðu verkefnastjóra. Líkt og gjarnan er með hugsjónastarf þá getur fjármögnun verið mikil áskorun og aðkoma sveitarfélagsins því mikilvæg. Fjárlaganefnd styrkti verkefnið um fimm milljónir króna fyrir árið 2025 en í því felst einnig mikil viðurkenning á gildi verkefnisins fyrir samfélagið. Fjármögnun HeimaHafnar til framtíðar er forsenda þess að hægt verði að sinna verkefninu af krafti og tryggja framgang þess.
Hvetjum við nærsamfélagið einnig til að styðja við verkefnið með því að skrá sig til þátttöku, taka á móti ungu fólki í kynningar og störf, miðla þekkingu og tækifærum eða með fjárframlagi.

Hornfirðingar mega vera stoltir af þessu metnaðarfulla verkefni! Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra HeimaHafnar, Eyrún Fríðu (heimahofn@nyheimar.is) til að fá nánari upplýsingar eða taka þátt í verkefninu.