Allt til alls fyrir fjölskyldufólk
Þorlákur Helgi bjó í Nesjum þegar hann var barn og segir það hafa haft mikil áhrif á sig að alast upp í sveit. Í dag býr hann á Höfn með fjölskyldu sinni og telur það henta þeim vel.
Pípulagningar – af því bara!
Þorlákur Helgi lauk stúdentsprófi frá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu og fór svo út á vinnumarkaðinn í nokkur ár, bæði á Höfn og í Reykjavík.
„Ég vissi ekki lengi hvað ég vildi læra en flutti til Reykjavíkur um tvítugt aðallega til að breyta um umhverfi því það voru tvö ár frá því að ég útskrifaðist úr FAS og mig langaði að prófa eitthvað nýtt. Fljótlega kom sú hugmynd að prófa iðnnám og pípulagnir urðu fyrir valinu, í raun „af því bara“. Nú hef ég lokið meistaranámi í pípulögnum og sé ekki eftir því að hafa valið iðnnám – og þess heldur pípulagnir. “
Landsbyggðin hefur upp á margt að bjóða
Búseta á landsbyggðinni hefur marga kosti að mati Þorláks Helga, ekki síst fyrir ungt fjölskyldufólk.
„Eftir að hafa búið í Reykjavík í 2-3 ár þá var það skýrt að ég vildi alls ekki búa á höfuðborgarsvæðinu. Það sem dregur mig helst á Höfn er að það er miklu hagstæðara að búa hér ef horft er t.d. í húsnæðisverð, það er stutt í allt, margir af vinum mínum búa enn hér og það er í rauninni allt til alls, sérstaklega fyrir ungt fjölskyldufólk. Þetta var í raun auðvelt val sérstaklega þegar konan mín, sem er frá Hafnarfirði, vildi líka búa hér og hafði lítinn áhuga að flytja aftur suður.
Þorlákur Helgi bætir við að hann telji vinnuumhverfi iðnmenntaðra áhugavert á landsbyggðinni.
„Ég hefði svo sem getað unnið hvar sem er sem pípari. En ég tel að vinna sem iðnaðarmaður úti á landi sé að mörgu leyti skemmtilegra, aðallega út af fjölbreytileika af vinnustöðum og vinnu sem þú ert á/í.“
Atvinna, áhugamál og félagsleg tengsl tvinnast saman
Fótbolti er eitt helsta áhugamál Þorláks Helga en hann hefur stundað íþróttina frá því að hann man eftir sér. Önnur áhugamál snúa einkum að samveru með fjölskyldunni, ferðalögum og tölvuleikjum. Pípulagnir falla svo bæði undir áhugamál og atvinnu. Þorlákur Helgi telur félagslíf í Hornafirði virkt og fjölbreytt.
„Ég held að það sé góð stemning hér, mikið um að vera, allskonar hópar hvort sem það eru hlaupa- eða crossfithópar, hittingar fyrir fólk í fæðingaroflofi og örugglega margt annað sem ég bara veit ekki af. Og ég held að hér, eins og á flestum stöðum, sé auðvelt að kynnast fólki og mynda tengsl í gegnum vinnustaði og er það oft góður staður til að byrja og mynda svo önnur tengsl í gegnum þau tengsl.“
Mikil uppbygging og miklir möguleikar
Þorlákur Helgi lítur jákvæðum augum á heimabyggðina og að hans mati er hér mikil uppbygging og miklir möguleikar, eins og hann orðar það. Ein helsta áskorun við búsetu fjölskyldunnar í Hornafirði segir Þorlákur Helgi felast í því að ættingjar þeirra búi flestir í yfir 450 km fjarlægð.
Almennt telur hann húsnæðismál meðal mikilvægustu þátta þegar kemur að ákvörðun fólks um að setjast að á landsbyggðinni.
„Það er klárlega eftirspurn eftir minni fasteignum og leiguhúsnæði. Framboð á fasteignum á viðráðanlegu verði, hvort sem það er til kaupa eða leigu, er mikilvægur þáttur. Ég held að landsbyggðin ætti að reyna að auglýsa eða selja betur hvað fasteignir og fasteignaverð eru hagstæðari þar en á t.d. höfuðborgarsvæðinu. Hvað getur þú fengið fyrir sama pening hér og þar. Svo lengi sem við höfum nóg framboð af fasteignum þá held ég að ungt sem og eldra fólk muni alltaf flytja út á landsbyggðina.“