Hafið, fjöllin og fólkið
Eftir nokkurra ára búsetu í Englandi flutti Þórdís María aftur heim til Hafnar ásamt fjölskyldu sinni. Hún er umsjónarkennari 8. bekkjar við Grunnskóla Hornafjarðar – þar sem hún var áður nemandi.
Var ekki á leiðinni frá Höfn þegar lífið tók óvænta stefnu
Að loknu námi í Menntaskólanum að Laugarvatni kom Þórdís María aftur heim til Hafnar og stundaði háskólanám í fjarnámi samhliða vinnu.
„Ég var heima í eitt ár og líkaði mjög vel, og ætlaði mér ekkert að fara neitt. Svo kynnist ég eiginmanni mínum og flutti til hans til Englands. Við bjuggum saman þar í fjögur ár, ég kláraði BA gráðu í félagsvísindum og afbrotafræði.“
Tóku af skarið og fluttu heim
Þegar dóttir þeirra hjóna fæddist tóku þau ákvörðun um að flytja til Hafnar. Eiginmaður Þórdísar Maríu „var aðeins efins fyrst enda vanur því að vinna í miðri London“. Þau fundu þó strax að ákvörðunin um að flytja heim var rétt; hér vilja þau ala dóttur sína upp.
Margir þættir hvöttu hjónin til búsetu í Sveitarfélaginu Hornafirði, segir Þórdís María. Hér eiga þau fjölskyldu og vini, skólastarf er öflugt og metnaðarfullt á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi og náttúrufegurðin mikil:
„Náttúran hér er einstök og býður upp á fjölmarga möguleika til þess að stunda útivist. Ég skora á Hornfirðinga sem lesa þetta að taka vel eftir útsýninu á leiðinni í vinnuna á morgun: Sjórinn, jökullinn og fjöllin sem við höfum hérna í garðinum okkar á Höfn er eitthvað sem fólk ferðast langar leiðir til þess að sjá einu sinni.“
Þórdís María metur mikils hversu fjölskylduvænt umhverfið og samfélagið er í Sveitarfélaginu Hornafirði:
„Fyrir fólk sem hefur búið erlendis eða í borg og er vant því að eyða heilmörgum klukkutímum á viku í að komast á milli staða (í vinnu og í búð til dæmis), býður lífsstíllinn sem fylgir því að öll helsta þjónusta er í göngufæri upp á mörg tækifæri til afþreyingar, gæðastunda með fjölskyldunni og til menntunar samhliða vinnu. Það eru forréttindi að geta labbað út í búð, í sund, á leikvöllinn og svo framvegis.
Pláss fyrir alla
Á Höfn eru góð tækifæri til menntunar og atvinnutækifærin eru mörg, segir Þórdís María og nefnir sérstaklega möguleika til fjarnáms og fjarvinnu:
„Fjarnám í háskólunum er orðið framúrskarandi og það var mjög gott að vera fjarnemi á Höfn, hér er góð aðstaða í Nýheimum og gott samstarf við háskólana. Það eru allskonar tækifæri til atvinnu hér en einnig er sveitarfélagið kjörinn staður til þess að stunda fjarvinnu. Til dæmis ætlar maðurinn minn, sem er hljóðtækniverkfræðingur, að vinna hér í fjarvinnu frá Englandi til þess að byrja með og hefur fengið til þess flotta aðstöðu og góða ráðgjöf. Það er allt hægt!“
Þórdís María hrósar stuðningi við nýja íbúa og móttökunum sem hún sjálf hefur fengið á nýjum vinnustað.
„Ég upplifi að hér sé pláss fyrir alla. Það er gífurlega mikilvægt fyrir erlenda nýbúa að fá stuðning og tækifæri til þess að læra íslensku og höfum við upplifað það að hér sé það raunin. Ég hef nýlega hafið störf sem umsjónarkennari í Grunnskóla Hornafjarðar, sem er mjög spennandi tækifæri fyrir mig, og hefur samstarfsfólk mitt þar tekið mjög vel á móti mér. Þau eru öll af vilja gerð að koma manni vel og fljótt inn á vinnustaðinn.“
Litla fjölskyldan upplifir að vera tekið opnum örmum
„Það er einstakt að vera á Höfn þar sem allir þekkja alla. Þeir sem hafa alist hér upp eru þaulvanir því en fyrir aðflutta getur það verið skrítin tilfinning að fara út í búð og þekkja engan, en allir þekkja mann! Það getur verið flókið en það er alveg einstakt hvernig samfélagið stendur þétt upp við sitt fólk þegar eitthvað bjátar á. Síðan við litla fjölskyldan komum heim hefur okkur verið tekið opnum örmum og höfum upplifað okkur mjög velkomin hér.“
Þórdís María segist sjá fyrir sér að búa á Höfn til frambúðar, fjölskyldunni líður mjög vel hér og lífsgæðin eru mikil. Að lokum, til að draga saman það sem gerir aðdráttarafl svæðisins svo sterk í huga hennar, segir hún:
„Ég má til með að vitna í lagið Hafið eða fjöllin eftir Ólaf Ragnarsson (Óla Popp): „Er það hafið eða fjöllin sem að laða mig hér að, eða er það kannski fólkið á þessum stað?““