Áhugamál og atvinna mætast

Öræfin eru kjörin heimkynni fyrir Styrmi þar sem hann getur stundað fjölbreytta útivist og hefur í nógu að snúast. Því er ekki að undra að Styrmir „elski að búa og vera í Öræfasveit“, eins og hann kemst að orði.

Æskustöðvar í Skaftafelli

Fimm ára gamall fluttist Styrmir frá Reykjavík til Öræfa þegar móðir hans tók við starfi þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli. Fram að unglingsaldri gekk hann í Grunnskólann í Hofgarði en færði sig þá til Hafnar.

„Þegar ég varð unglingur (13 ára) fór ég í nám á Höfn en þá var Grunnskólinn á Hofi aðeins með 5 nemendur og mig vantaði meiri félagstengsl. Ég kom heim um helgar oftast nær. Ég fór síðan í Menntaskólann að Laugarvatni og var þar 2 vetur og vann heima sem landvörður í Skaftafelli á sumrin.“

Hann er nú kominn aftur á æskuslóðir og kann því einkar vel.

„Mér finnst frábært að vera langt frá þéttum byggðum, kaupa nóg í matinn fyrir mánuði í einu, að fara út og hafa fjalladýrðina blasandi við mér eins og geimvídd guðs á hverjum degi. Ég get stundað öll mín útivistar áhugamál (utan sunds) með litlum fyrirvara og svo framvegis.“

Áhugamál og atvinna mætast

Í gegnum tíðina hefur Styrmir sinnt landvörslu víða um land og einnig unnið við leiðsögn, aðallega jökla- og íshellaleiðsögn. Styrmir hefur góðan grunn til þessara starfa því hann hefur lokið fjallamennskunámi frá FAS.

Starfsvettvangur Styrmis er nátengdur áhugamálum hans:

Helstu áhugamál mín snúa einmitt að útivist í íslensku landslagi. Helst eru jöklaferðir, fjallgöngur, klettaklifur, fjallaskíði, víðavangshlaup og íslenskar sundlaugar.“

„Klifurfélag Öræfa gerði mikið fyrir mig og ég gat eytt vikum saman í daglegu inniklifri. Núna er ég í stjórn félagsins.“

Að byggja upp samfélag

Styrmir er ánægður með mannlífið í sveitinni og segir Öræfinga afar vingjarnlega. Hann lýsir því hvernig búseta á svæðinu leiði til samfélagskenndar:

„Ég held að mjög mörgu ungu fólki, sem og fólki á öllum aldri, langi til að setjast að í Öræfum. Það fólk mun líklegast öðlast sterka samfélagskennd og myndi vera stolt af því að gera samfélagið betra. Allavega er það mín reynsla og foreldra minna.“

Hann sér tækifæri til aukinnar samvinnu um ýmis verkefni á svæðinu:

„Ég myndi óska að samfélagið hefði einskonar “verktaka” móral þar sem samfélagið gæti auglýst verkefni sem það þarfnast hjálpar með og fólk sem er búsett þar gæti tekið þau að sér og þannig gætum við stutt við hvort annað í uppbyggingu samfélagsins sem allir myndu hafa gott af.“

Mikilvægt að ferðaþjónustan þróist á ábyrgan hátt

„Ég vil sjá heilbrigða ferðamennsku í öllum þeim geirum sem skilar sér til sveitarinnar og fólksins sem stundar vinnuna. Massatúrismi fyrirtækja sem taka tekjurnar til Reykjavíkur eða utan landsteina gerir sveitina minna aðlaðandi að öllu leyti og sýgur upp megnið af þessari auðlind sem er ótakmörkuð en ekki eilíf.“

Aðspurður um hvað sé mikilvægt til þess að ungt fólk vilji setjast að á landsbyggðinni lýsir Styrmir þeim áhrifum sem þróun ferðaþjónustu getur haft á húsnæðismál:

„Það sem þarf að gera er að byggja gott húsnæði og halda í skefjum leiðsögufyrirtækjarisunum sem kaupa upp land og hús fyrir starfsmenn sem í besta falli koma aftur og aftur í starfsmannahús og tengjast samfélaginu án þess að geta keypt eða leigt íbúð en munu líklegast flest eyða einu til tveim sumrum á svæðinu og koma svo ekki aftur.“

Ýta þurfi undir að lítil fyrirtæki með hæft fólk geti keypt eða leigt húsnæði og byggt upp.

Heim

Styrmir vill áfram eiga sinn samastað í Öræfum þó einnig sé gott að breyta til.

„Ég flyt hingað aftur og vil hafa þetta heimili mitt sem samastað út ævina. Þó er líka gott að fara aðeins í burtu til að öðlast meiri þekkingu á lífinu annars staðar en þetta er alltaf staðurinn sem ég kalla heima og hér vil ég ala upp mín börn og eyða miklum tíma á þessum frábæra stað.“