Nejra Mesetovic

Þátttaka í bæjarmálum til að hafa áhrif á samfélagið

Að mati Nejru hefur
Suðausturland margt að bjóða ungu fólki og með HeimaHöfn er stuðlað að enn
sterkara samfélagi.

Framtíðaráformin mótuð í grunnskóla

Nejra gekk í
Grunnskóla Hornafjarðar og í 10. bekk
vann hún verkefni sem hafði mótandi áhrif á líf hennar. Verkefnið gekk
út á að lýsa leið sem nemendur vildu feta og segja má að þar hafi Nejru tekist
að draga upp raunsanna mynd!

„Í þessu verkefni sagðist ég ætla að fara í FAS og fara á málabraut því mig
langaði að læra tungumál, það stóðst. Ég sagðist í verkefninu ætla að fara í
ferðamálafræði í HÍ sem stóðst líka en þá ákvörðun tók ég þar sem mér finnst
gaman að tala við fólk, segja þeim frá og fræða um Ísland.“

Fjölskyldutengslin, atvinnumöguleikarnir og náttúran

Á námsárunum í Reykjavík
vann Nejra samhliða skólanum í Upplýsingamiðstöð Reykjavíkur. Hugurinn leitaði
þó heim í Hornafjörð.

„Það sem dró mig aftur til Hafnar eftir grunnnámið voru bæði
fjölskyldutengslin, atvinnumöguleikarnir og náttúran, sem hefur alltaf verið
mikilvæg fyrir mig.

Fjölbreytt atvinnutækifæri

Nejra hefur sinnt margvíslegum
verkefnum á sviði ferðaþjónustu á Suðausturlandi en markaðsmálin hafa iðulega
verið í brennidepli.

„Ég bætti við mig námi í markaðsfræði þar sem ég sá að það myndi veita
mér enn fleiri tækifæri í tengslum við ferðaþjónustuna. Meistaranámi í
markaðsfræði lauk ég í fjarnámi frá Háskólanum á Bifröst á meðan ég bjó og
starfaði á Höfn.“

Hún hefur einnig reynslu
af því að sinna starfi í fjarvinnu því hún vann um tíma fyrir Markaðsstofu
Suðurlands, með aðsetur á Höfn.

„Það var aldrei í kortunum að flytja í burtu þannig að ég samdi við
atvinnurekandann að vinna í fjarvinnu héðan frá Höfn þar sem ég nýtti mér
aðstöðu sveitarfélagsins fyrir störf án staðsetningar.“

Frá árinu 2024 hefur
Nejra verið verkefnastjóri hjá Nýheimum þekkingarsetri og segist komin heilan
hring í markaðsmálunum; nú markaðssetji hún fyrir heimamenn í stað ferðamanna.

Þátttaka auðgar lífið

„Ég er mjög ánægð með að búa hér. Að mínu mati eru fjölmörg tækifæri hér og
félagslífið er gott. Það er margt hægt að gera en maður þarf að leggja sig
fram, hafa hugrekki og taka þátt. Hér er til dæmis fjölbreytt
menningarstarfsemi, íþróttastarf, félagasamtök til að taka þátt í og viðburðir
í boði. Þeir sem taka þátt í félagslífinu eiga auðveldara með að kynnast fólki
með svipað hugarfar – og þannig skapast traust og jákvæð sambönd sem auðga
lífið.“

Styrkleikar fjölmenningar  

Nejra hefur reynslu af
sveitarstjórnarmálum, sat meðal annars í fræðslu- og tómstundanefnd og var
varamaður í bæjarstjórn. Einnig kom hún að stofnun fjölmenningarráðs og gegnir
þar formennsku. Nejra var fjögurra ára þegar fjölskylda hennar flutti til
Íslands frá Bosníu.   

„Ég tók þátt í bæjarmálum til að hafa áhrif á samfélagið og leggja mitt af
mörkum, en sem manneskja af erlendum uppruna hef ég öðruvísi sýn á ýmsa hluti
sem ég tel að geti haft jákvæð áhrif á þróun og fjölbreytileika samfélagsins.
Sú reynsla gaf mér dýpri skilning á samfélagsmálum og mikilvægi þess að efla
tengsl innan samfélagsins.“

svf_hornafjordur-0643
previous arrow
next arrow