
Fegurð og friður í Öræfum
Matthías hefur búið meirihluta ævi sinnar á Hofsnesi í Öræfum og unir hag sínum vel. Hann starfar sem leiðsögumaður í ferðum út í Ingólfshöfða ásamt foreldrum sínum og bróður.
Djúpar rætur á svæðinu
Föðurfjölskylda Matthíasar hefur búið á Hofsnesi kynslóðum saman. Saga móðurfjölskyldu hans er einnig tengd Öræfum en er jafnframt samtvinnuð eldgosinu í Vestmannaeyjum árið 1973.
„Amma Helga og afi Steini höfðu aldrei komið á Höfn en þau áttu góða vinkonu á Hofsnesi í Öræfum (Heiðu mömmu hans pabba) og hvatti hún þau til að koma austur á Höfn og setjast þar að. Á þessum tíma var ekkert laust húsnæði á Höfn fyrir utan eitt fokhelt hús á Norðurbraut. Þau ákváðu að kaupa það, og dvaldi amma í einn mánuð í Lækjarhúsum á Hofi með mömmu og tveimur systrum hennar á meðan afi gekk frá kaupunum á húsinu og réði hann sig í vinnu í frystihúsinu. Þegar Skaftafell var gert að þjóðgarði árið 1967 vann afi Steini þar um tíma sem handlangari við byggingu á upplýsingamiðstöðinni. Þannig að þau voru vel kunnug hér í Öræfum og eftir að þau fluttu austur á Höfn héldu þau góðu sambandi við fólkið hér – og þannig fór það að mamma og pabbi kynntust þegar þau voru krakkar.“
Frumkvöðlastarf afa Matthíasar markaði upphaf fjölskyldufyrirtækis.
„Föðurafi minn var frumkvöðull sem hóf að fara með ferðamenn út í Ingólfshöfða upp úr 1990 og lagði grunninn að fyrirtækinu okkar í dag. Þetta byrjaði þannig að afi hitti þýskan ferðamann í búðinni sem var þá á Fagurhólsmýri og hann hafði áhuga á því að skoða vitann úti í Höfða – en afi átti dráttarvél og bauðst til þess að fara með hann fyrir 50 kall. Síðan vatt þetta upp á sig og fyrr en varði spurðist það út að bóndinn á Nesinu væri að fara með ferðmenn út í Höfða.“
Stefna fyrirtækisins er að halda starfseminni lágstemmdri og þjónustunni persónulegri og því bjóða þau einungis ferðir sem þau ná að anna sjálf. Þetta finnst fjölskyldunni gefast vel og veita viðskiptavinum þeirra einstaka upplifun.
Væntingar til þróunar náms í fjallamennsku
Matthías er alinn upp við að fara upp á jökul með föður sínum sem byrjaði með jöklaferðir löngu áður en það þótti sjálfsagt mál að fara á jökul.
„Mér þykir mjög vænt um jökulinn og landslagið í kringum hann. Það hefur líka þróast þannig að ferðamennska á jökli er orðin mjög vinsæl, en það heillar mig hins vegar alls ekki að vinna í því starfsumhverfi eins og staðan er í dag.“
Jökullinn skapar heilmikla atvinnu og tækifæri á svæðinu og Matthías fylgist áhugasamur með fjallamennskunáminu, sem að miklu leyti hefur farið fram í Öræfum. Segist hann binda vonir við að jöklamennskuumhverfið eigi eftir að þróast í jákvæða átt með tilkomu Fjallaskólans og aukinni umgjörð frá Vatnajökulsþjóðgarði.
Björgunarsveitin er góður félagsskapur
Matthías sinnir fjölbreyttum áhugamálum, einkum eldsmíði ásamt bílabreytingum og -viðgerðum. Það kemur sér vel að geta gert við bíla sjálfur, segir Matthías, þar sem ekkert bifreiðaverkstæði er í Öræfum. Hann er einnig virkur í starfi björgunarsveitar og slökkviliðs.
„Mér finnst gaman að hjálpa fólki og taka ábyrgð í samfélaginu og þess vegna ákvað ég að fara í björgunarsveitina okkar hérna sem heitir Kári. Björgunarsveitin er líka skemmtilegur vettvangur félagslega þannig að mér finnst ég vera að gera hvoru tveggja: vera til staðar þegar fólk (oftast ferðamenn) lendir í vandræðum en svo hitti ég líka fólk hér á svæðinu í gegnum vinnu með sveitinni sem ég hitti ekki oft í annan tíma. Ég er líka í slökkviliði Hornafjarðar, en við erum með deild hér í Öræfum sem er undir Hornafjarðardeildinni.“
Veðrið getur verið hamlandi – en á sama tíma heillandi!
Að mati Matthíasar býður búseta í Öræfum upp á fjölmarga kosti, ekki síst fegurð náttúrunnar og friðsemd sem fæst í gegnum útiveru. Helstu gallar séu langar vegalengdir í ýmsa þjónustu og hamlandi veðurfar.
„En í rauninni, þótt ég nefni veðrið þá finnst mér ekkert meira kósí en að sofa heima í vitlausum veðrum þegar gluggarnir titra. Og að sofa úti í tjaldi í vondum veðrum getur verið alveg mögnuð upplifun. Þannig að maður nýtur líka fjölbreytni veðursins sem er ómögulegt að fá leið á því það breytist stöðugt.“