Tengslamyndun í umhverfi þar sem öll þekkjast

Það er auðheyrt á frásögn Magndísar Lóu að í Sveitarfélaginu Hornafirði leynast fjölbreytt tækifæri til menntunar, atvinnu, félagsstarfs og tengslamyndunar.
Skemmtilegur tími í FAS
Magndís Lóa var meðal nýstúdenta Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu vorið 2025 og er ánægð með þá ákvörðun að hafa stundað nám við skólann.
„Ég ákvað að fara í FAS og er ný útskrifuð þaðan (í maí) með stúdentspróf. Skemmtileg þrjú ár. Ég tók þátt í þremur leikritum með Leikfélagi Hornafjarðar í samstarfi við FAS. Starfið með leikfélaginu hjálpaði mikið með félagslífið og ég lærði mjög mikið af því ævintýri.“
Hún ítrekar gildi félagsstarfs og afþreyingar.
„Mér fannst alveg virkilega gaman að starfa með leikfélaginu. Fyrir mér var mikilvægt og gott að finna einhverja afþreyingu til þess að hafa eitthvað að gera fyrir utan skóla eða vinnu.“
Nám í FAS kom einnig vel út fjárhagslega fyrir Magndísi Lóu því þannig gat hún búið áfram í foreldrahúsum. Henni gafst líka færi á að stunda vinnu meðfram náminu.
„Eftir grunnskóla ákvað ég bara að vera hér í FAS, vera í vinnu með skóla og nýta mér að vera heima (frítt hehe).“
Mikill áhugi á matargerð
Nýr kafli í skólagöngu Magndísar Lóu hófst áður en hún hafði lokið námi við FAS. Um miðbik síðasta ársins í FAS komst hún á samning sem kokkanemi á veitingastaðnum Otto á Höfn. Reynsla hennar af veitingabransanum nær þó enn lengra.
„Ég byrjaði ung að vinna í uppvaski í eldhúsinu á Otto og fékk gríðarlegan áhuga á matargerð. Svo hef fært mig til og unnið í þó nokkrum eldhúsum á Höfn og alltaf lært fullt af öllum. Ég byrjaði síðan á samningi á Otto og er ennþá á þeim samningi að læra.“
Klára námið og svo aftur heim síðar
Árin á Höfn hafa verið innihaldsrík hjá Magndísi Lóu. Henni fannst „gott að geta verið hér og á sama tíma aflað sér þekkingar á matargerð“. En innan skamms horfir til breytinga því Magndís Lóa stefnir á að færa sig til höfuðborgarsvæðisins og ljúka námi við Menntaskólann í Kópavogi.
„Planið mitt er að fara eftir sumarið 2026 í MK til þess að klára kokkinn.“
Hún segist hlakka til fyrirhugaðra breytinga á högum sínum.
„Ég er alveg mjög spennt að prufa eitthvað nýtt, annað umhverfi og kynnast nýju fólki þar sem maður veit nú eiginlega alveg hverjir allir hér eru. En á sama tíma er ég alveg viss um að ég komi á Höfn aftur einhvern tímann.“
Gaman að kynnast fólki
Hér á svæðinu þekkjast flest, að einhverju marki að minnsta kosti, eins og Magndís Lóa bendir á. Það varð henni ánægjuleg reynsla að mynda og þróa tengsl á ýmsum vettvangi, svo sem í skólanum, vinnunni og leikfélaginu. Þó að flest þekkist þá eru tækifæri til að kynnast!
„Ég kynntist fullt af fólki miklu betur sem ég vissi hver væru en urðu svo bara mínir bestu vinir“.