Kristín Vala Þrastardóttir
Fann ævintýri lífsins
Kristín Vala ólst upp
í Hafnarfirði. Að loknu háskólanámi í spænsku og ferðamálafræði langaði hana að
breyta til og prófa að vinna úti á landi eitt sumar. Síðan þá hefur Hornafjörður
verið heimili hennar!
„Ég tók í raun aldrei ákvörðun um að setjast hér að en þetta rólega og
afslappaða samfélag og nálægðin við þessa mögnuðu náttúru hefur svo mikið
aðdráttarafl. Umhverfið, fjöllin og jöklarnir gjörsamlega heilla mig. Ég dáist
bæði af umhverfinu úr fjarska en fer líka í ævintýraferðir um sveitirnar. Svo
er engin núvitundaræfing betri en að fljóta um í firðinum á kajak, virða fyrir
sér eyjarnar, fjallahringinn og bæjarlífið úr fjarska. Ég flutti fyrst til
Hornafjarðar í leit að tímabundnu ævintýri en fann í staðinn ævintýri lífs míns
í samfélaginu hér.“
Tækifærin og möguleikarnir – íbúar lykilaðilar
Kristín Vala er mjög
ánægð með að búa í Sveitarfélaginu Hornafirði og segist einna best kunna að
meta tækifærin.
„Það eru alltaf möguleikar til að taka þátt í einhverju – hvort sem það eru
íþróttir, viðburðir eða samfélagsstarf. Félagslífið hér í sveitarfélaginu er
eins og hver og einn vill hafa það! Það sem er ekki í boði er einfalt að móta
og hvetja aðra til að vera með. Við sem hér búum erum lykilaðilar samfélagsins
og þurfum að virkja okkur og aðra í að móta samfélagið eins og við viljum hafa
það.“
Áhrif vináttu á aðlögun
Í gegnum árin hefur
Kristín Vala eignast góða vini á svæðinu og segir það mjög dýrmætt.
„Það sem hefur ef til vill haft mest áhrif á aðlögun mína að samfélaginu
hér er hversu auðvelt það hefur verið að kynnast fólki og eignast vini.“
Fjölbreytt störf og meistaragráða í fjarnámi
Fyrst um sinn starfaði
Kristín Vala í ferðaþjónustu en fór þá í frekara nám og lauk meistaranámi í
menningarstjórnun í fjarnámi. Að námi loknu tóku við átta viðburðarík ár sem
verkefnastjóri hjá Nýheimum þekkingarsetri. Á síðari hluta ársins 2024 hófst svo
nýr kafli.
„Ég hef nú tekið við sem forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar en
þar mun ég halda áfram að vinna að því að gera gott samfélag enn betra og
byggja upp jákvætt starf í þágu íbúa Hornafjarðar.“
Bjartar framtíðarhorfur
Í huga Kristínar Völu
er framtíð svæðisins björt og með HeimaHöfn aukast möguleikar ungs fólks enn
frekar.
„Ég held að dýrmætast fyrir samfélagið sé að gera boðleiðir og tækifæri
samfélagsins skýrari svo allir íbúar geti fundið sinn stað, hvort sem það er
til samfélagsþátttöku, atvinnu eða annars. Þar kemur starf HeimaHafnar sterkt
inn. Hér getur allt orðið að veruleika!“







