Að afloknu stúdentsprófi eða jafngildu prófi standa dyr háskólanna opnar. Á Íslandi eru sjö háskólar og ógrynni námsleiða með ólíkum möguleikum varðandi samsetningu náms og námsfyrirkomulag. Einnig er í boði iðn- og tækninám sem flokkast sem framhaldsnám eftir stúdentsprófi eða samsvarandi menntun. 

Háskólar á Íslandi

Almennt gildir að háskólanám standi þeim til boða sem lokið
hafa stúdentsprófi eða jafngildu prófi. Frá þessu eru þó undantekningar. Sérstök skilyrði eða forkröfur eru í ákveðnu námi á háskólastigi, í vissum tilfellum eru til dæmis inntökupróf. Háskólum er einnig heimilt að innrita nemendur sem ekki hafa lokið stúdentsprófi ef þeir teljast hafa sambærilega þekkingu.
Aðfaranám, fyrir þá sem ekki uppfylla inntökuskilyrði, er í boði í tengslum við
ákveðið nám. Forkröfur þarf að skoða sérstaklega í hverju tilfelli fyrir sig og
hafa í huga að breytingar geta orðið á reglum skólanna í þessum efnum.

Umsóknaferli háskólanna er mismunandi á milli skóla og námsleiða. Tímanlega þarf að huga að umsóknarfresti, gerð umsóknar og
fylgigögnum og kynna sér vel hvað gildir í því námi sem sótt er um.

Á heimasíðum háskólanna er að finna allar helstu upplýsingar
fyrir verðandi nemendur. Náms- og starfsráðgjafar geta einnig veitt mikilvægt
liðsinni. Háskóladagurinn er árlegur viðburður í samstarfi allra háskóla landsins þar sem námsframboð skólanna er kynnt. Almennar upplýsingar um nám á háskólastigi eru aðgengilegar á Ísland.is.

 

 

Starfræktir eru sjö háskólar á Íslandi, fjórir ríkisháskólar og þrjár sjálfseignarstofnanir.

Háskóli Íslands

Fræðasvið við HÍ eru: Félagsvísindasvið, Heilbrigðisvísindasvið, Hugvísindasvið, Menntavísindasvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið.

Háskólinn í Reykjavík

Við skólann er í boði nám á samfélagssviði og tæknisviði.

Háskólinn á Akureyri

Skólinn býður nám á hug- og félagsvísindasviði annars vegar og heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið hins vegar.

Listaháskóli Íslands

Deildir skólans eru arkitektúrdeild, hönnunardeild, kvikmyndalistadeild, listkennsludeild, myndlistardeild, tónlistardeild og sviðslistadeild.

Háskólinn á Bifröst

Í boði er nám við félagsvísindadeild, lagadeild og viðskiptadeild.

Háskólinn á Hólum 

Við skólann eru þrjár deildir; ferðamáladeild, fiskeldis- og fiskalíffræðideild og hestafræðideild.

Landbúnaðarháskóli Íslands .

Við skólann eru þrjár fagdeildir; Skipulag & Hönnun, Náttúra & Skógur, Ræktun & Fæða. 

Húsnæði

Við flesta háskóla eru nemendagarðar þar sem nemendum gefst kostur á að leigja herbergi eða íbúð. Nemendagarðar eru í mörgum tilfellum á háskólasvæðunum. Kynnið ykkur hvaða kostir eru í stöðunni út frá því hvaða skóla og námsleið þið veljið.

Nokkur sveitarfélög bjóða námsmannaíbúðir til leigu og fást upplýsingar hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig. Nemendum, sem ekki hafa aðgang að nemendagörðum eða námsmannaíbúðum og leigja á almennum markaði, er bent á að kynna sér rétt sinn hjá viðkomandi sveitarfélagi og víðar.  

Byggingafélag námsmanna

Nemenda skóla sem eiga aðild að Bandalagi íslenskra námsmanna, BÍSN, geta sótt um húsnæði á vegum Byggingafélags námsmanna. Núverandi aðildarskólar eru Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Listaháskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Tækniskólinn. Húsnæði á vegum Byggingafélags námsmanna er á nokkrum svæðum í Reykjavík, meðal annars við Háskólann í Reykjavík, og í Hafnarfirði.

Félagsstofnun stúdenta – Stúdentagarðar

Allir geta sótt um leiguhúsnæði á vegum Stúdentagarða Félagsstofnunar stúdenta en nemendur við Háskóla Íslands njóta forgangs við úthlutun. Áhersla er á að bjóða hentugt og vel staðsett húsnæði á sanngjörnu verði. Í boði eru ólíkar lausnir í húsnæðismálum, allt frá einstaklingsherbergjum til fjölskylduíbúða. Stærsti hluti húsnæðisins er á háskólasvæðinu (HÍ) en stúdentagarðar eru þó einnig víðar í borginni. 

Menntasjóður námsmanna

 

Nemendur eiga í mörgum tilfellum rétt á láni úr Menntasjóði námsmanna. Lán sjóðsins eru af nokkrum gerðum en þau helstu eru vegna grunnframfærslu, húsnæðis, skólagjalda, framfærslu barna og ferðakostnaðar. Lánshæft nám telst meðal annars starfsnám og viðbótarnám við framhaldsskóla ásamt námi við íslenska háskóla og aðfaranám fyrir háskólanám.

Styrktarsjóðir

Á Íslandi eru fjölmargir sjóðir sem styrkja fólk í námi á háskólastigi. Úthlutanir úr sjóðunum eru með afar margvíslegum hætti, til dæmis styrkja ákveðnir sjóðir fólk almennt til náms á meðan aðrir sjóðir aðstoða við fjármögnun stakra verkefna. Kanna þarf í hverju tilfelli fyrir sig hvaða sjóðir standa nemendum til boða.

Upplýsingar um styrki eru að einhverju leyti aðgengilegar á heimasíðum skólanna en auglýsingar geta birst víðar svo vert er að líta í kringum sig af og til!