Að afloknu stúdentsprófi eða jafngildu prófi standa ýmsar dyr opnar. Leiðin getur til dæmis legið áfram í nám eða út á vinnumarkaðinn. Á vegum verkefnisins HeimaHöfn hefur nú verið tekinn saman upplýsingapakki ætlaður ungmennum sem hyggja á áframhaldandi búsetu í Sveitarfélaginu Hornafirði eftir framhaldsskólanám. Farið er yfir ólíka möguleika meðal annars varðandi nám, atvinnu, búsetu og félagslíf.
Háskólanám
Tækifæri til háskólanáms óháð búsetu aukast sífellt.
Almennt gildir að háskólanám standi þeim til boða sem lokið hafa stúdentsprófi eða jafngildu prófi. Frá þessu eru þó undantekningar. Sérstök skilyrði eða forkröfur eru í ákveðnu námi á háskólastigi, í vissum tilfellum eru til dæmis inntökupróf. Háskólum er einnig heimilt að innrita nemendur sem ekki hafa lokið stúdentsprófi ef þeir teljast hafa sambærilega þekkingu. Aðfaranám, fyrir þá sem ekki uppfylla inntökuskilyrði, er í boði í tengslum við ákveðið nám. Forkröfur þarf að skoða sérstaklega í hverju tilfelli fyrir sig og hafa í huga að breytingar geta orðið á reglum skólanna í þessum efnum.
Umsóknaferli háskólanna er mismunandi á milli skóla og námsleiða. Tímanlega þarf að huga að umsóknarfresti, gerð umsóknar og fylgigögnum og kynna sér vel hvað gildir í því námi sem sótt er um.
Á heimasíðum háskólanna er að finna allar helstu upplýsingar fyrir verðandi nemendur. Náms- og starfsráðgjafar geta einnig veitt mikilvægt liðsinni. Háskóladagurinn er árlegur viðburður í samstarfi allra háskóla landsins þar sem námsframboð skólanna er kynnt. Almennar upplýsingar um nám á háskólastigi eru aðgengilegar á Ísland.is.
Starfræktir eru sjö háskólar á Íslandi, fjórir ríkisháskólar og þrjár sjálfseignarstofnanir.
Háskóli Íslands
Fræðasvið skólans eru: Félagsvísindasvið, Heilbrigðisvísindasvið, Hugvísindasvið, Menntavísindasvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið. Í boði er fjöldi námsleiða og námskeiða í fjarnámi og stöðugt unnið að því að fjölga þeim.
Háskólinn í Reykjavík
Skólinn býður nám á samfélagssviði og tæknisviði. Ákveðin námskeið og námsleiðir eru í boði í fjarnámi.
Háskólinn á Akureyri
Við skólann er nám á hug- og félagsvísindasviði annars vegar og heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið hins vegar. Allt grunnám við skólann er í boði sem sveigjanlegt nám sem þýðir að nemendur mæta í námslotur.
Listaháskóli Íslands
Deildir skólans eru arkitektúrdeild, hönnunardeild, kvikmyndalistadeild, listkennsludeild, myndlistardeild, tónlistardeild og sviðslistadeild. Fjarnám er mögulegt í ákveðnum tilfellum í gegnum gáttina Opni Listaháskólinn.
Háskólinn á Bifröst
Í boði er nám við félagsvísindadeild, lagadeild og viðskiptadeild. Mikil áhersla er á fjarnám við skólann og kennsla lotubundin.
Háskólinn á Hólum
Við skólann eru þrjár deildir; ferðamáladeild, fiskeldis- og fiskalíffræðideild og hestafræðideild. Boðið er upp á fjarnám með staðbundnum lotum.
Landbúnaðarháskóli Íslands
Við skólann eru þrjár fagdeildir; Skipulag & Hönnun, Náttúra & Skógur, Ræktun & Fæða. Fjarnámslausnir eru í boði á flestum brautum skólans.
Iðnnám
Við Tækniskólann eru í boði ákveðnar námsleiðir sem flokkast sem framhaldsnám eftir stúdentspróf eða sambærilega menntun. Framhaldsnám við Tækniskólann er á eftirfarandi námsbrautum: hljóðtækni, iðnmeistaranám, stafræn hönnun og vefþróun. Í mörgum tilfellum er fjarnám með staðlotum í boði, kallað dreifnám við skólann. Upplýsingar um inntökuskilyrði, umsóknarfresti og annað sem varðar framhaldsnámið eru aðgengilegar á heimasíðu Tækniskólans.
Verkefni og starfsnám
HeimaHöfn leitast við að leiða saman fyrirtæki, stofnanir og nemendur í tengslum við starfsnám og verkefnavinnu. Í Sveitarfélaginu Hornafirði er fjölskrúðugt atvinnulíf og kjörin tækifæri fyrir nemendur að öðlast reynslu og fá innsýn í hinar ýmsu greinar.
Við hvetjum nemendur til að kynna sér fjölbreytta möguleika á sviði starfsnáms og/eða verkefnavinnu á svæðinu. Hikið ekki við að leita til HeimaHafnar eftir upplýsingum og annarri aðstoð!
Atvinna
Atvinnulífið er spennandi vettvangur. Þau sem ætla að snúa sér að vinnu í kjölfar náms í framhaldsskóla geta velt fyrir sér ýmsum kostum. Á meðan einhverjum hugnast að gerast launþegar getur freistað annarra að fara í eigin rekstur, ef til vill frumkvöðlastarf. Hvaða leið sem valin er á vinnumarkaði getur verið gott að átta sig á því helsta sem gildir í atvinnulífinu. Gagnlegar upplýsingar um hinar ýmsu hliðar vinnumarkaðarins svo sem málefni ungs fólks í atvinnulífinu, réttindi og skyldur má meðal annars nálgast hjá opinberum stofnunum, stéttarfélögum og fagsamböndum.
Hægt er að fá ráðgjöf varðandi atvinnutengd málefni hjá byggðaþróunarfulltrúum SASS (eva@nyheimar.is) og byggða- og nýsköpunarfulltrúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar (byggd@hornafjordur.is)
Á Ísland.is eru gott yfirlit almennra
upplýsinga um vinnumarkaðinn til dæmis um ólíkt form ráðninga ásamt fræðslu fyrir verktaka og einyrkja.
Áttavitinn er gagnleg upplýsingaveita um margvísleg málefni ungs fólks, þar á meðal atvinnumál.
Varða – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins rannsakar og greinir aðstæður á vinnumarkaði.
Hjá skattinum fást upplýsingar um það sem snýr að skattamálum til dæmis vegna eigin reksturs. Sérstök fræðsla er fyrir þá sem eru að hefja rekstur.
Samtök atvinnulífsins eru heildarsamtök íslensks atvinnulífs með sex aðildarsamtökum innan ólíkra
atvinnugreina.
Atvinnuumsóknir
Í Sveitarfélaginu Hornafirði er fjölbreyttur vinnumarkaður. Áhugaverð störf eru auglýst á vef sveitarfélagsins, samfélagsmiðlum og víðar. Einnig má alltaf athuga með möguleika á starfi þó ekki sé verið að auglýsa á þeim tímapunkti.
Aðstoð við gerð atvinnuumsókn má fá víða, til dæmis hjá náms- og starfsráðgjöfum.
Almennar upplýsingar um atvinnuumsóknir má einnig nálgast á Ísland.is og Áttavitanum.is. Hjá Atvinnumáladeild Hins Hússins býðst ókeypis atvinnuráðgjöf sem felst meðal annars í undirbúningi fyrir atvinnuviðtöl og aðstoð við gerð ferilskrár og kynningarbréfs.
Frumkvöðlar
Við bendum frumkvöðlum á stuðning í gegnum Nýsköpunarnetið,
samstarfsvettvang Nýheima þekkingarseturs, Vöruhússins, Sveitarfélagsins
Hornafjarðar og Háskólafélags Suðurlands. Eitt helsta verkefni
Nýsköpunarnetsins er frumkvöðlahreiðrið í Miðbæ á Höfn. Sveitarfélagið útvegar
aðstöðu hreiðursins en þekkingarsetrið veitir stuðning og ráðgjöf. Af öðrum
verkefnum Nýsköpunarnetsins má nefna miðlun upplýsinga um nýsköpunarstuðning og
vikulegt frumkvöðla- og einyrkjakaffi til að efla tengsl og hlusta á þarfir
þátttakenda.
Stuðningur og fræðsla fyrir frumkvöðla er einnig í boði hér:
Skapa.is er nýsköpunargátt með upplýsingum fyrir frumkvöðla.
Á heimasíðunni er gott yfirliti yfir stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi.
Nýskapandi miðlar fróðleik um nýsköpun meðal annars upplýsingum um styrktarsjóði.
Rannís styður við rannsóknir, nýsköpun, menntun og menningu.
Ungir Frumkvöðlar á Íslandi tilheyra alþjóðlegu samtökunum Junior Achievement. Á heimasíðu þeirra
er má finna náms- og stuðningsefni.