Hugrún Harpa Reynisdóttir
Brennur fyrir bættu aðgengi að námi óháð búsetu
Stærstan hluta ævinnar hefur Hugrún búið í Sveitarfélaginu Hornafirði. Fram á unglingsár bjó hún á Mýrum en er nú búsett á Höfn. Það tók þó nokkurn tíma að átta sig á að lífið í heimahögunum væri einmitt það sem hún vildi.
Höfuðborgin að loknum 10. bekk
Þegar Hugrún lauk grunnskólagöngu lá leiðin til höfuðborgarinnar. Á þeim tímapunkti heillaði áframhaldandi dvöl á suðausturhorninu ekki.
„Ég ætlaði mér alls ekki að búa á Höfn þegar ég var yngri, ég var þá ein af þeim sem var sannfærð um að það væri eitthvað annað og betra annars staðar. Eftir að hafa klárað 10. bekk í Heppuskóla vildi ég fara annað í framhaldsskóla og Fjölbrautaskólinn í Garðabæ varð fyrir valinu.“
Hér eru ræturnar
Á þriðju önn Hugrúnar í FG fóru kennarar í verkfall sem breytti stöðunni töluvert. Hugrún flutti þá heim í sveitina og kláraði stúdentinn í FAS. Þaðan lá leiðin aftur frá Hornafirði, fyrst út á vinnumarkaðinn á Selfossi og svo í háskólanám í Reykjavík.
„Ég ákvað að fara í félagsfræði við Háskóla Íslands. Aftur flutti ég á höfuðborgarsvæðið en í þetta sinn héldum við út í eitt ár þar til ákveðið var að flytja til baka heim til Hafnar og hér höfum við fjölskyldan verið síðan. Þegar ég flutti heim eftir fyrsta árið í háskólanum hafði ég loksins áttað mig á því að hér liði mér best, hér eru ræturnar mínar og hér vil ég vera.“
Hugrún vildi þó ekki gefa félagsfræðina upp á bátinn og fékk samþykkt hjá kennurum HÍ að klára BA námið í fjarnámi. Nokkrum árum síðar bætti hún við sig mastersgráðu í umhverfis- og auðlindafræði, einnig í fjarnámi og samhliða vinnu.
Fjarnám háskólanna sífellt öflugra
Margt ungt fólk vill víkka sjóndeildarhringinn og reyna fyrir sér á nýjum slóðum. Öðrum hugnast betur að vera áfram á heimaslóðum og að mati Hugrúnar á það ekki að fela í sér glötuð tækifæri til frekari menntunar. Mikilvægi fjarnáms er því verulegt og í störfum sínum hefur Hugrún lagt mikla áherslu á að beita sér fyrir menntunartækifærum óháð staðsetningu. Hún hvetur fólk til að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni í hverju tilfelli fyrir sig.
„Eins og í mínu tilfelli þá er stundum hægt að fá undanþágur og með góðu samstarfi við kennara getur gengið upp að stunda nám sitt héðan. Það er alltaf þess virði að láta á það reyna og kanna möguleika sína í stað þess að ákveða að það geti ekki gengið. Við þurfum kannski aðeins að berjast fyrir því en þá gerum við það bara.”
Óvænt tækifæri til að nýta menntun í starfi
Hugrún hafði ekki leitt hugann mikið að því hvort hún fengi atvinnu á heimaslóðum þar sem menntunin nýttist til fulls. Hún vissi hvar hún vildi vera og treysti því að á endanum fengi hún vinnu við hæfi. Og það varð raunin! Spennandi atvinnutækifæri skaut óvænt upp kollinum að námi loknu.
„Þar sem ég var búin að taka háskólaprófin mín hér í Nýheimum þá vissu þeir aðilar sem hér störfuðu á þeim tíma hvaða menntun ég væri að sækja mér. Þegar þekkingarsetrið fór svo af stað með sitt fyrsta Evrópuverkefni, sem fjallaði um atgervisflótta ungs fólks frá dreifðari byggðum, hafði þáverandi forstöðumaður samband við mig og bauð mér tímabundið starf hjá Nýheimum. Fyrir mig var það frábært tækifæri þar sem ég gat nýtt félagsfræðina og eins fann ég strax að Nýheimar voru góður vettvangur til þess að vinna í þágu samfélagsins sem mér finnst afar gefandi. Það skemmdi heldur ekki fyrir að ég þekkti það vel sjálf að vera ung og á „flótta“ frá litla landsbyggðarsamfélaginu mínu.
Hugrún hefur nú gegnt starfi forstöðumanns Nýheima þekkingarseturs um árabil – og nú er hún ekki á förum frá Hornafirði.
„Framtíðin er hér, hér á ég heima og hér líður fjölskyldunni minni vel. Mér þykir vænt um þennan stað og þetta samfélag og vil leggja mitt af mörkum við að efla það og bæta með starfi okkar í Nýheimum. Mín upplifun er sú að unga fólkið okkar sjái betur og betur þau lífsgæði sem hér eru.“







