Lífsgæði sem finnast ekki annars staðar

Stundum kalla félagarnir Hermann Bjarna „Reykvíkinginn“ og vissulega fæddist hann í Reykjavík og bjó þar fyrstu árin. Hann var þó ekki nema átta ára þegar fjölskylda hans flutti til Hafnar, á heimaslóðir móðurfjölskyldunnar. Og hér hefur Hermann Bjarni skotið rótum og segist sjá framtíð sína í Hornafirði.

Sveinsprófi lokið og meistaranám hafið

Hermann Bjarni gerðist handlangari hjá pípara á svæðinu fyrir nokkrum árum, eiginlega fyrir tilviljun. Starfið heillaði og hann ákvað að leggja greinina fyrir sér. Sveinsprófi lauk hann frá Tækniskólanum í Hafnarfirði árið 2024 með glæsibrag og hlaut viðurkenningu frá forseta Íslands. Sama ár lauk hann einnig stúdentsprófi.

„Þegar ég klára skólann er ég með vinnu sem pípari í Reykjavík en finn að ég er ekki að finna mig á þeim stað. Þetta er bara annað sport úti á landi. Þá fer ég að spyrjast fyrir um íbúð til að leigja hér á Höfn og hitti svo sannarlega holu í höggi þar sem fyrstu skilaboð enduðu á því að ég flyt hingað í mars 2024.“

Málin hafa svo þróast á þá leið að Hermann Bjarni er orðinn húseigandi á Höfn og sækir sér frekari menntun í pípulögnum.

„Ég er nýlega búinn að kaupa mér hús og er byrjaður í meistaranámi. Stefnan er að opna mitt eigið pípulagningafyrirtæki einn daginn.“

Fagsvið Hermanns Bjarna er að hans sögn ein helsta ástæða þess að hann valdi að búa hér. Pípulagnir eru einnig vettvangur mikilla félagslegra tengsla.  

„Í gegnum þetta starf kynnist ég ótrúlega mörgu fólki sem ég hefði annars aldrei kynnst.“

Gefandi frístundir

Það leynir sér ekki að Hermann Bjarni kann vel við sig í námi og starfi. Frítímann nýtir hann einnig vel og þar leikur útivist stórt hlutverk.

„Ég hef mikinn áhuga á útivist og hreyfingu. Ég stunda golf af krafti á sumrin. Svo reyni að fara í fjallgöngur þegar ég get, ýmist til að fara í fjallahlaup eða bara til að upplifa íslensku náttúruna. Fór í fjölmargar eftirminnilegar fjallgöngur síðasta sumar, á Ketillaugarfjall, Klifatind og upp að Hoffellsvatni, bara til að nefna nokkrar. Ekki slæmur staður til að vera ef þú vilt skreppa í fjallgöngu!“

Um árabil stundaði Hermann Bjarni fótbolta. Hann hefur nú tekið sér hlé frá þeirri grein en snúið sér að CrossFit.

„Ég æfði fótbolta lengi vel og var það einnig mikil ástæða fyrir því að ég vildi vera hér frekar en í Reykjavík. Ég reyndi að æfa með nokkrum félögum í Reykjavík en fann að það var bara ekki sami andi eða ára í búningsklefanum þar og er hér. Hér leið manni mun meira eins og hluti af liði eða af einni heild. Eitthvað sem ég upplifði ekki í bænum. Svo fór ég að stunda CrossFit hjá Fenri Elite fyrir um ári og eignast þar fullt af vinum og kunningjum.“

Einstaklingurinn partur af samfélaginu

Að mati Hermanns Bjarna verður hver einstaklingur hluti af samfélaginu á sérstakan hátt á landsbyggðinni og það finnst honum mikilvægt. Hann segist gjarnan greina frá þessu þegar fólk spyr hvers vegna hann velji að búa úti á landi.

„Hérna er maður partur af samfélagi. Hérna er maður einhver. Hér er auðveldara að sýna sig, minna á sig, gera eitthvað úr sínu nafni! Hér þurfa allir að gera sitt til að halda uppi samfélaginu.“

Hermann Bjarni telur lífið á landsbyggðinni búa yfir mikilsverðum lífsgæðum sem fólk annars staðar er ekki endilega meðvitað eða upplýst um. 

„Mikilvægt er að kynna lífið úti á landi betur. Þetta er ekki jafn slæmt og síðasta útilegan eða blautt tjald á þjóðhátíð. Það eru lífsgæði hér úti á landi sem finnast ekki annars staðar.“

Framtíðaráformin miða að áframhaldandi búsetu á svæðinu, eða eins og hann orðar það glettinn: „Þið eruð föst með mig!“