Rólegra yfir öllu og minna stress

Halldóra hefur víðtæka reynslu af ferðaþjónustu og hefur meðal annars starfað sem þjónn, landvörður, leiðsögumaður og á ferðaskrifstofu. Hún tók nýverið við stöðu verkefnastjóra ferðamála hjá Sveitarfélaginu Hornafirði.

Gildi starfsemi félagasamtaka

Fyrir nokkrum árum flutti Halldóra frá æskustöðvunum á Höfn til Reykjavíkur. Reynsla hennar sýnir hvernig starf með félagasamtökum getur auðveldað tengslamyndun og þátttöku á nýjum stað. Halldóra hafði, líkt og foreldrar hennar og systkini, tekið virkan þátt í starfi Landsbjargar á Höfn. Meðan hún bjó í Reykjavík starfaði hún svo með björgunarsveit þar.

„Landsbjörg er landsþekkt félag og það auðveldaði mér mikið að flytja til Reykjavíkur eftir að starfa með sveitinni hérna heima því ég gat gengið í sveit þar og þannig fundið mér félagslíf.  Það sama gilti þegar ég flutti aftur heim – það var tekið mjög vel á móti manni aftur!“

„Ég held það sé auðvelt að kynnast fólki hérna í Hornafirði ef þú ert til í að taka þátt í félagslífinu hérna, mörg félög í boði og margt spennandi að gerast!“

Búsetuval stækkandi fjölskyldu

Ástæður flutninganna til Hafnar voru fyrst og fremst breytingar á fjölskylduhögum en Halldóra og maðurinn hennar áttu þá von á sínu fyrsta barni.

„Mig langaði að vera nær baklandinu til að fá meiri stuðning meðan maðurinn minn væri á sjó. Það hjálpaði líka alveg að við gátum keypt stórt framtíðar hús hérna í staðinn fyrir litla íbúð í Reykjavík og biðin á leikskóla var töluvert styttri.“

Ákvörðunin um að færa sig um set hefur gefið góða raun og það fer vel um fjölskylduna.

„Mér finnst yndislegt að vera komin aftur heim og okkur líður mjög vel hérna. Það er rólegra yfir öllu og minna stress. Svo fannst mér foreldramorgnarnir frábærir, sérstaklega þar sem ég flutti heim í byrjun fæðingarorlofs og var því ekki mikið að hitta annað fólk eins og maður gerir þegar maður er í vinnu.“

Heillandi starf skaut upp kollinum

Atvinnumál Halldóru voru óráðin þegar fjölskyldan flutti til Hafnar. Hún ákvað einfaldlega að treysta því að úr rættist.

„Þegar ég flutti heim var í raun ekkert framtíðarstarf í boði sem mér fannst sérstaklega spennandi eða hentaði mér á þeim tímapunkti. Ég ákvað því að setja traustið mitt á Höfn og að leyfa mér að nota fæðingarorlofið til að bíða og sjá hvort eitthvað kæmi upp. Í miðju fæðingarorlofi sá ég svo auglýst starf verkefnastjóra ferðamála hjá sveitarfélaginu. Ég fann strax að það var eitthvað sem heillaði mig mikið, því það sameinaði bæði reynslu mína og áhuga á ferðaþjónustu. Ég ákvað að sækja um – og fékk starfið!“

Almennt telur Halldóra mikilvægt að huga að atvinnutækifærum ungs fólks. „Ef fólk vill vinna í ferðaþjónustu þá eru möguleikarnir hérna endalausir“ segir hún um stöðu atvinnumála í Sveitarfélaginu Hornafirði. Hins vegar geti skort á möguleika í öðrum greinum.

„Ég hef hitti nokkra sem vilja koma heim en fá til dæmis ekki starfsnám hérna á Höfn og enda þá á að koma sér fyrir í Reykjavík eða nágrenni.“

Tengsl fjölskyldunnar eru enn sterk við höfuðborgarsvæðið því þar eiga þau marga nákomna auk þess sem maður Halldóru stundar sjómennsku frá Reykjavík.

„Við erum alltaf með annan fótinn í Reykjavík og spilar það stóran part í hvort við verðum hér til framtíðar eða ekki. En ætli við tökum bara ekki einn dag í einu og sjáum hvert það tekur okkur.“