Í Sveitarfélaginu Hornafirði hefur ungt fólk mikla möguleika á að hafa áhrif og koma að ákvarðanatöku. Starfræktar eru nefndir og ráð sem byggja á störfum barna og ungmenna; Ungmennaráð Hornafjarðar, Nemendafélag FAS, Þrykkjuráð, nemendaráð fyrir 7.-10. bekk grunnskólans og hugmyndaráð fyrir yngri bekki grunnskólans.

Á sviði stjórnmála er virk starfsemi innan þriggja félaga; Framsóknarfélags Austur-Skaftafellssýslu, Kex framboðs og Sjálfstæðisfélags Austur-Skaftafellssýslu.

Ungt fólk getur einnig, rétt eins og allir aðrir íbúar, komið sjónarmiðum sínum á framfæri án þátttöku í skilgreindum nefndum, ráðum eða félögum. Boðleiðir í sveitarfélaginu eru stuttar og aðgengi að kjörnum fulltrúum og stjórnsýslunni almennt er þægilegt. Hvert og eitt okkar getur látið rödd sína heyrast á ólíkum vettvangi. 

Ungmennaráð Hornafjarðar

Ungmennaráð Hornafjarðar er ein af fastanefndum Sveitarfélagsins Hornafjarðar og samanstendur af einstaklingum á aldrinum 13-24 ára. Ungmennaráð tekur þátt í umfjöllun um fjölbreytt mál í sveitarfélaginu og er mikilvægur vettvangur til að koma skoðunum ungs fólks á framfæri. 

Ráðið fundar einu sinni í mánuði og á að auki rétt á áheyrnarfulltrúum í öðrum fastanefndum sveitarfélagsins svo sem umhverfis- og skipulagsnefnd, fræðslu- og frístundanefnd, atvinnu- og menningarmálanefnd, hafnarstjórn og velferðarnefnd. Fulltrúar í ráðinu eru einnig hvött til þátttöku í stýrihópum sveitarfélagsins.

Ráðið er skipað með eftirfarandi hætti:

  • 3 fulltrúar frá Grunnskóla Hornafjarðar
  • 3 fulltrúar frá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu
  • 1 fulltrúi frá félagsmiðstöðinni Þrykkjunni
  • 1 fulltrúi frá Ungmennafélaginu Sindra
  • 2 fulltrúar frá atvinnulífinu

Ungmennaráð leggur mikla áherslu á þátttöku og hvetur ungt fólk á svæðinu til að hafa samband ef þau hafa hugmyndir eða málefni sem þau vilja koma á framfæri. Fulltrúar úr ungmennaráði mæta á viðburði á landsvísu tengdum málefnum ungmenna.

Nemendafélag FAS

Um nemendafélög í framhaldsskólum er fjallað í lögum um framhaldsskóla (nr. 92/2008) og segir þar:

“Í hverjum framhaldsskóla skal starfa nemendafélag. Nemendafélag vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Það setur sér reglur um skipan, starfssvið og starfshætti. Nemendafélög starfa á ábyrgð skóla. Nemendafélögum skal búin aðstaða til starfsemi sinnar.
-Framhaldsskólum er heimilt að styrkja starfsemi nemendafélaga fjárhagslega og skal bókhald þeirra háð sömu endurskoðun og aðrar fjárreiður framhaldsskóla.”

Í stjórn Nemendafélags FAS sitja forseti þess, varaforseti og formenn klúbba skólans. Þessir fulltrúar skipa nemendaráð FAS. Helstu hlutverk nemendaráðs eru að skipuleggja félagslíf nemenda og vinna að hagsmunamálum þeirra. Ráðið situr skólafund og vinnur með yfirstjórn skólans að skipulagningu og mótun náms sem byggir á tómstundum og félagslífi. Nemendaráð á tvo áheyrnarfulltrúa í skólanefnd.

Félagslífsfulltrúi skólans starfar með nemendaráði.

Frekari upplýsingar um Nemendafélag FAS, meðal annars lög félagsins og fundargerðir nemendaráðs, eru aðgengilegar á heimasíðu skólans. Félagið er einnig virkt á samfélagsmiðlum.

Tengiliður: Jóhann Bergur Kiesel, johannb@fas.is

Heimasíða: https://fas.is/

Samfélagsmiðlar: Nemendafélag FAS

Netfang: nemfas@fas.is 

Símanúmer: 470-8070

Heimilisfang: Nýheimar, Litlubrú 2, Höfn

Öllum nemendum í FAS er heimilt að bjóða sig fram í stjórn nemendafélagsins.

Þrykkjuráð

Þrykkjan er félagsmiðstöð ungmenna á Hornafirði og er hún mikilvægur liður í forvarna– og tómstundastarfi sveitarfélagsins. Starfsemi Þrykkjunnar skiptist í þrennt og er almenn opnun tvisvar á dag alla daga vikunnar fyrir 5. – 10. bekk grunnskólans. Unglingastig Þrykkjunnar á í góðu samstarfi við félagsmiðstöðvar annars staðar á landinu og sækir meðal annars viðburði á vegum Samfés. 

Ávallt er reynt að koma til móts við óskir ungmenna í sambandi við uppákomur og viðburði í Þrykkjunni og er þar starfandi Þrykkjuráð sem krakkarnir manna sjálf. Helsta hlutverk Þrykkjuráðs er að halda utan um félagslíf nemenda utan skólans og á skólatíma. Þrykkjuráð skipuleggur starf félagsmiðstöðvarinnar með forstöðumanni. Náið samstarf er milli Þrykkjuráðs og nemendaráðs grunnskólans, einkum í tengslum við stærri viðburði.

Nemendaráð

Við Grunnskóla Hornafjarðar starfar nemendaráð skipað fulltrúum úr 7.-10. bekk. Kosið er í nemendaráð fljótlega eftir að skóli hefst á haustin. Helstu hlutverk fulltrúa í nemendaráði eru að:

  • Stuðla að góðum skólabrag
  • Vera rödd nemenda í hagsmunamálum þeirra
  • Vera jákvæð og hvetjandi í almennu skólastarfi
  • Vera lausnamiðuð í vinnu
  • Vera virk í samskiptum og góð fyrirmynd
  • Halda utan um félagslíf nemenda í frímínútum og á skólatíma
  • Vera tilbúin að nota hluta af frítíma sínum í starfið

Nemendaráð leggur einkum áherslu á félagslífið í skólanum á skólatíma. Að stærri viðburðum, svo sem árshátíð, haustfagnaði, fullveldisfagnaði og vorhátíð, vinna Þrykkjuráð og nemendaráð með fulltingi einstakra bekkja sameiginlega. Töluverð skörun er í störfum nemendaráðs og Þrykkjuráðs og mikið lagt upp úr góðri samvinnu.

Tengiliður: Berglind Steinþórsdóttir og Jón Guðni Sigurðsson

Heimasíða: https://gs.hornafjordur.is/nemendur/nemendarad/

Netfang: skrifstofagrunnsk@hornafjordur.is

Símanúmer: 470-8400

Heimilisfang: Víkurbraut, Höfn

Aldur: Nemendur í 7.-10. bekk

Kyn: Öll velkomin