Allir til í gott spjall

Aðalbjörg er uppalin á Kálfafelli í Suðursveit og er nú komin aftur í heimahagana eftir nokkra fjarveru. Hugurinn leitaði stöðugt heim svo að hennar mati lá beinast við að setjast að í sveitinni. Það var þó ekki endilega alltaf ætlunin að gerast bóndi á Kálfafelli.

Metur fjölbreytta náttúru Suðursveitar mikils

Aðalbjörg fann sig ekki almennilega þegar hún bjó annars staðar en í Suðursveit. Dreifbýlið og nálægðin við náttúruna henta henni einkar vel:

„Ég hef aldrei unað mér í þéttbýli og margmenni. Og svo er það náttúran. Hana kann ég alltaf meira að meta. Sjórinn út um eldhúsgluggann og fjöllin og jökullinn í bakgarðinum.“

Lífið í sveitinni togaði í Aðalbjörgu árið um kring, það var alltaf eitthvað sem hún saknaði:

„Það var svo sem aldrei planið að búa hér og verða bóndi en þegar hugurinn leitar alltaf heim, hvort sem það er í sauðburð, heyskap eða bara til að njóta kyrrðarinnar í myrkum janúarmánuði, þá lá þetta beinast við. Ætli það mætti ekki segja að kindurnar hafi kallað mig heim.“

Gefandi félagslíf

Í Suðursveit eru bæði ungmennafélag (Ungmennafélagið Vísir) og kvenfélag (Kvenfélagið Ósk). Aðalbjörg segir skipulagt félagslíf annars ekki mjög mikið í Suðursveit. Ljóst er þó að félagslífið á svæðinu er mikilvægt og gefandi fyrir íbúana:

„Við höfum virkt ungmennafélag og kvenfélag sem skipuleggja nokkra viðburði á hverju ári. Að ógleymdu þorrablóti sem íbúar leggja mikla vinnu í.“

Aðalbjörg greinir einnig frá því félagslífi sem felst í samstarfi bænda vegna ýmissa verkefna í landbúnaði. Þetta samstarf hefur mikið gildi að mati Aðalbjargar. Samvinna bænda, til dæmis í kringum fjársmölun, er þannig mikilvægur liður í félagslífi Suðursveitunga:

„Það mætti segja að mesta félagslífið sé á haustin, en það er tíminn sem bændur vinna mest saman við að smala fénu.“

Samstarfið veitir vettvang fyrir umræðu og vangaveltur:

„Það getur farið mikill tími í að ræða hvernig gæti verið best að sækja fé upp á hæstu fjallatinda og enn lengra spjall eftir að fénu er náð um hvernig þetta fór allt saman, hvernig féð hagaði sér og hvað hefði mátt betur fara.“

Alls staðar heitt á könnunni

Aðalbjörg telur að ungu fólki standi ýmsir möguleikar til boða í Suðursveit, meðal annars góð tækifæri í landbúnaði og ferðaþjónustu. Í Suðursveit er að hennar mati einnig gott að ala upp börn:

„Hér er gott að ala upp börn, þau fá að njóta viss frelsis og fá reynslu sem önnur börn fá ekki“.

Suðursveitungar vilja taka vel á móti nýjum íbúum og Aðalbjörg segir dyr nágrannanna alltaf standa opnar:

„Við í Suðursveit tökum fagnandi öllum þeim sem hér vilja búa og taka þátt í samfélaginu. Svo er alltaf hægt að kíkja í kaffi til nágrannans. Það eru allir með heitt á könnunni og til í gott spjall.“