Lok grunnskólagöngu marka ákveðin tímamót. Nemendur sem ljúka grunnskólanámi í Sveitarfélaginu Hornafirði standa frammi fyrir mörgum spennandi valkostum varðandi framtíð sína. Hvert stefnir hugur þinn?
Að ýmsu er að hyggja þegar lagt er á ráðin um hvað tekur við eftir 10. bekk. Á vegum verkefnisins HeimaHöfn hefur nú verið tekinn saman upplýsingapakki sem ætlað er að vera ákveðinn vegvísir þegar kemur að mótun framtíðaráforma. Farið er yfir ólíka möguleika meðal annars varðandi nám og búsetu, félagslíf og atvinnutækifæri.
Búsetuúrræði
Hyggi einstaklingar á nám fjarri heimabyggð þarf að huga
sérstaklega að búsetu. Við val á búsetuúrræðum þarf að hafa ýmislegt í huga,
ekki síst fjárhagslega þáttinn og samgöngumöguleikar á milli dvalarstaðar og
skóla.
Heimavist
Heimavist getur verið ákjósanlegur kostur en þar býðst nemendum fæði og húsnæði og er gjaldtöku fyrir þjónustuna stillt í hóf.
Eftirfarandi skólar á framhaldsskólastigi eru með heimavist:
Byggingafélag námsmanna
Aðildarskólar Byggingafélags námsmanna eru flestir á háskólastigi en Tækniskólinn er þó undantekning. Allir nemendur Tækniskólans geta sótt um íbúð á vegum Byggingafélags námsmanna, einnig þeir sem stunda nám á framhaldsskólastigi.
Leiga á almennum markaði
Á almennum leigumarkaði er húsnæði bæði á vegum einstaklinga og leigufyrirtækja. Á netinu er að finna fjölmargar síður þar sem leiguíbúðir eru auglýstar. Auglýsingar er alltaf rétt að skoða með gagnrýnu hugarfari og áherslu á ábyrg viðskipti.
Upplýsingar um leigu á almennum markaði má meðal annars nálgast hjá Leigjendasamtökunum, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Áttavitanum, Ísland.is og Leigjendaaðstoð Neytendasamtakanna.
Ættingjar og vinir
Vert getur verið að skoða þann möguleika að fá að leigja húsnæði á vegum ættingja eða vina, til dæmis að fá afnot af herbergi sem annars standur autt.
Styrkir
Nemendum og forráðamönnum þeirra standa til boða ólíkar leiðir til að mæta kostnaði við nám, bæði í formi styrkja og lána.
Jöfnunarstyrkur
Nemendur sem stunda nám á framhaldsskólastigi, fjarri lögheimili og fjölskyldu, eiga í sumum tilfellum rétt á jöfnunarstyrk. Uppfylla þarf ákveðin skilyrði svo sem um fjarlægð frá lögheimili og námstilhögun. Jöfnunarstyrkur getur ýmist verið í formi dvalarstyrks eða akstursstyrks. Nemandi getur að hámarki fengið jöfnunarstyrk í 4 ár eða 8 annir.
Nánari upplýsingar um jöfnunarstyrk eru til dæmis á vef Menntasjóðs og þar er einnig sótt um styrkinn. Á Ísland.is og Áttavitanum eru líka gagnlegar upplýsingar um jöfnunarstyrk.
Menntasjóður námsmanna
Nemendur geta átt rétt á námsláni hjá Menntasjóði námsmanna. Starfsnám og viðbótarnám við framhaldsskóla á Íslandi og erlendis telst lánshæft hjá sjóðnum. Umsækjendur og námið sem stundað er, þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði. Frekari upplýsingar og umsóknarform er á vef sjóðsins.
Aðrir styrkir
Sveitarfélagið Hornafjöður getur veitt sérstakan húsnæðisstuðning fyrir einstaklinga á aldrinum 15-17 sem sækja skóla og búa á heimavist.
Í Reglum um fjárhagsaðstoð hjá Sveitarfélaginu Hornafirði er ákvæði um aðstoð til tekjulágra foreldra vegna barna á þeirra framfæri (17. grein). Er þar meðal annars kveðið á um fjárstyrk til tekjulágra foreldra vegna náms 16 og 17 ára barna þeirra. Styrknum er ætlað að mæta kostaði við námsgögn, skólagjöld og ferðakostnað til og frá skóla.
Framtíðarsjóður Hjálparstarfs kirkjunnar styrkir efnalista framhaldsskólanema til að mæta kostnaði við skólagöngu (skólagjöld og námsgögn). Sjá nánar á vef Hjálparstarfs kirkjunnar.
Ýmis fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök standa einnig að styrkjum til nemenda á ólíkum námsstigum. Fyrirkomulag getur verið með ólíkum hætti, svo sem fjöldi úthlutana, hverjir geta sótt um og hvernig umsókn er skilað. Vert er að athuga í hverju tilfelli fyrir sig hvaða styrkir gætu staðið til boða.