Lok grunnskólagöngu marka ákveðin tímamót. Nemendur sem ljúka grunnskólanámi í Sveitarfélaginu Hornafirði standa frammi fyrir mörgum spennandi valkostum varðandi framtíð sína. Hvert stefnir hugur þinn?

Að ýmsu er að hyggja þegar lagt er á ráðin um hvað tekur við eftir 10. bekk. Á vegum verkefnisins HeimaHöfn hefur nú verið tekinn saman upplýsingapakki sem ætlað er að vera ákveðinn vegvísir þegar kemur að mótun framtíðaráforma. Farið er yfir ólíka möguleika meðal annars varðandi nám og búsetu, félagslíf og atvinnutækifæri.   

Nám

Nám á þriðja skólastiginu, það er að segja í framhaldsskólum, er skipulagt sem beint framhald af námi í grunnskóla.  Skólar á þriðja skólastiginu eru ýmist kallaðir framhaldsskólar, iðnskólar, fjölbrautaskólar, menntaskólar eða verkmenntaskólar.

 

Nám á framhaldsskólastigi er fjölbreytt og mikið úrval námsleiða í boði. Ítarlega kynning á starfsemi framhaldsskóla er á vefnum Næstu skref og á vef Stjórnarráðs Íslands

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) býður upp á fjölbreytt nám á Höfn í Hornafirði. Hann leggur áherslu á persónulegt nám, fjarnám og opið aðgengi að kennurum. Í skólanum stunda um 150 nemendur nám og er skólinn stoltur af námsframboði sínu. 

Hér fyrir neðan eru upplýsingar um námsbrautirnar sem eru í boði við skólann en frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu hans.

 

Hug- og félagsvísindabraut

Brautinni lýkur með stúdentsprófi og skilar nemendum á þriðja hæfniþrepi. Brautin er 200 einingar og skiptist í kjarna, sérhæfingu og óbundið val. Á brautinni er lögð áhersla á hug- og félagsvísindi. Nemendur sem ljúka brautinni öðlast hæfni til að takast á við háskólanám á því sviði.   

Náttúru- og raunvísindabraut

Brautinni lýkur með stúdentsprófi og skilar nemendum á þriðja hæfniþrepi. Brautin er 200 einingar og skiptist í kjarna, sérhæfingu og óbundið val. Á brautinni er lögð áhersla á náttúru- og raunvísindi. Nemendur sem ljúka brautinni öðlast hæfni til að takast á við háskólanám á því sviði. 

Kjörnámsbraut

Brautinni lýkur með stúdentsprófi og skilar nemendum á þriðja hæfniþrepi. Brautin er 200 einingar og skiptist í kjarna, sérhæfingu sem er sniðin að framtíðarmarkmiðum nemandans og óbundið val. Brautin er sniðin að þörfum þeirra sem hafa hug á að sérhæfa sig á sviðum sem til að mynda teljast ekki til hefðbundins háskólanáms.

Framhaldsskólabraut

Námi á framhaldsskólabraut er ætlað að búa nemendur sem ekki náð tilskildum árangri á grunnskólaprófi undir frekara bóknám og/eða verkgreinanám. Brautinni lýkur með framhaldsskólaprófi. Framhaldsskólabrautin er 90 einingar og er miðað við að nemendur ljúki henni á tveimur árum. Markmið framhaldsskólabrautar eru sniðin að einstaklingsbundnum þörfum hvers nemanda en þó eru gerðar kröfur um að námslok séu á hæfniþrepi 2. 

Fjarnám á framhaldsskólastigi

Fjarnám er í boði við marga framhaldsskóla og gerir nemendum kleift að stunda nám óháð staðsetningu og gefur einnig meiri sveigjanleika varðandi tíma, t.d. fyrir þau sem vilja stunda nám samhliða vinnu. Eftirfarandi framhaldsskólar bjóða upp á fjarnám:

Fjarmenntaskólinn er samstarfsvettvangur framhaldsskóla sem miðar að því að auka framboð náms á framhaldsskólastigi. 

Jöfnunarstyrkur

Nemendur sem stunda nám á framhaldsskólastigi, fjarri lögheimili og fjölskyldu, eiga í sumum tilfellum rétt á jöfnunarstyrk. Uppfylla þarf ákveðin skilyrði svo sem um fjarlægð frá lögheimili og námstilhögun. Jöfnunarstyrkur getur ýmist verið í formi dvalarstyrks eða akstursstyrks. Nemandi getur að hámarki fengið jöfnunarstyrk í 4 ár eða 8 annir.

Nánari upplýsingar um jöfnunarstyrk eru til dæmis á vef Menntasjóðs og þar er einnig sótt um styrkinn. Á Ísland.is  og Áttavitanum eru líka gagnlegar upplýsingar um jöfnunarstyrk.

Menntasjóður námsmanna

Nemendur geta átt rétt á námsláni hjá Menntasjóði námsmanna. Starfsnám og viðbótarnám við framhaldsskóla telst lánshæft hjá sjóðnum. Umsækjendur og námið sem stundað er, þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði. Frekari upplýsingar og umsóknarform er á vef sjóðsins

Aðrir styrkir

Í Reglum um fjárhagsaðstoð hjá Sveitarfélaginu Hornafirði
er ákvæði um aðstoð til tekjulágra foreldra vegna barna á þeirra framfæri (17.
grein). Er þar meðal annars kveðið á um fjárstyrk til tekjulágra foreldra vegna
náms 16 og 17 ára barna þeirra. Styrknum er ætlað að mæta kostaði við námsgögn, skólagjöld og ferðakostnað til og frá skóla.

Framtíðarsjóður Hjálparstarfs kirkjunnar styrkir efnalista
framhaldsskólanema til að mæta kostnaði við skólagöngu (skólagjöld og
námsgögn). Sjá nánar á vef Hjálparstarfs kirkjunnar.

Ýmis fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök standa einnig að
styrkjum til nemenda á ólíkum námsstigum. Fyrirkomulag getur verið með ólíkum hætti, svo sem fjöldi úthlutana, hverjir geta sótt um og hvernig umsókn er skilað. Vert er að athuga í hverju tilfelli fyrir sig hvaða styrkir gætu staðið
til boða. 

Námsaðstaða í Nýheimum

Í Nýheimum er góð aðstaða til að sinna náminu, til dæmis á Nýtorgi og á bókasafni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar. Á bókasafni býðst einnig önnur þjónusta til dæmis aðgangur að bókakosti, aðstoð við heimildaleit og útprentun.

Starfsnám í heimabyggð

Starfs-, iðn- og tækninám eru meðal valkosta að loknum grunnskóla. Flest starfs-, iðn- og tækninám byggir að stórum hluta á verklegu námi. Við hvetjum nemendur í slíkum greinum til að kynna sér möguleika á að sinna starfsnámi í heimabyggð. HeimaHöfn leitast við að leiða saman nemendur og fyrirtæki í tengslum við starfsnám.